Vatnsleysustrandarhreppur

Vatnsleysustrandarhreppur

Sveitarfélagið Vogar (áður Vatnsleysustrandarhreppur) er sveitarfélag á norðanverðum Reykjanesskaga.
Flestir íbúar sækja vinnu annars staðar, t.d til Reykjavíkur eða Keflavíkur en áður byggðist atvinnulífið að mestu á sjósókn.

Í sveitarfélaginu er byggðarlagið Vogar, þar búa 1.161 manns. Víkin sem þorpið stendur í heitir Vogavík en þorpið hét áður Kvíguvogar og Vogastapi sunnan þorpsins hét Kvíguvogabjörg.
Í Stakksfirði undan Vogastapa voru góð fiskimið, sem hétu Gullkistan.

Vogar eru í 14km fjarlægð frá Reykjanesbæ og 25km fjarlægð frá Hafnarfirði. Staðhættir Voga eru þeir að byggðin er á mjórri ræmu meðfram ströndinni, þó ekki samfelld.

Nokkrir bændur voru nokkuð á undan sinni samtíð og urðu brautryðjendur á ýmsan hátt. Bóndi nokkur í Vogum keypti hafskip, sendi það til Spánar með fisk og keypti útgerðarvörur í staðinn. Þá var annar bóndi á Vatnsleysuströnd sem kom fyrstur manna fram með þá hugmynd að friða Faxaflóa fyrir erlendum fiskveiðiskipum.

Byggð hefur hafist í Vatnsleysustrandarhreppi strax við landnám. Í Landnámu segir frá Steinunni hinni gömlu er var frændkona Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns. Hún var hinn fyrsta vetur með Ingólfi. Ingólfur ,,bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf fyrir heklu flekkótta” (ermalaus kápa með hettu) ,,og vildi kaup kalla”. Menn ætla að Steinunn gamla hafi reist bæ sinn á Stóra-Hólmi í Leiru (líklega fyrsta verstöð á Suðurnesjum).
Steinunn gaf frænda sínum og fóstra, Eyvindi af landi sínu ,,milli Kvíguvogabjarga og Hvassahrauns” og telst því sérstakt landnám. Land þetta hefur trúlega náð frá fjöru til fjalls, til móts við landnám Molda-Gnúps í Grindavík og Þóris haustmyrkurs í Krýsuvík. Land Eyvindar var því Vatnsleysustrandarhreppur eins og hann er í dag.
Ekki hélst Eyvindi lengi á landinu því það ásældist Hrolleifur Einarsson sem bjó á Heiðarbæ í Þingvallasveit. Hann skoraði á Eyvind að selja sér landið, en ganga á hólm við sig ella. Bauð þá Eyvindur jarðaskipti og varð það úr. Hrolleifur bjó síðan í Kvíguvogum og er þar heygður.

Kvíguvogar kallast nú einungis Vogar og Kvíguvogabjörg, Vogastapi eða oft aðeins Stapi.

Hér fyrir neðan verða skráðar þær jarðir er tilheyrðu þessum hreppi.

Ef þú hefur upplýsingar um þær sem uppá vantar, þá værum við afar þakklát ef þú vildir senda okkur þær á jord@svo.is

Skráningarstaða jarða í þessum hreppi:

  • Skráningu lokið
  • Skráning í vinnslu
  • Skráning ekki hafin - Vantar upplýsingar