Steypustöðin eignast Króksverk
Steypustöð Skagafjarðar hefur fest kaup á mölunarfyrirtækinu Króksverki á Sauðárkróki af fyrirtækinu Ölni sem eignaðist það á síðasta ári. Pétur Bjarnason hjá Ölni sagði þá við Feyki að meginástæða kaupanna hafi verið malbikunarstöðin Norðurbik á Akureyri sem Króksverk átti hlut í og fylgir hún ekki með kaupunum nú.Að sögn bræðranna Friðriks og Ásmundar Pálmasona, yfirtók Steypustöðin daglegan rekstur Króksverks sem áfram verður rekið undir sama nafni. „Okkur stóð þetta til boða og við ákváðum að slá til, teljum að það felist ákveðin tækifæri í þessari starfsemi. Einnig teljum við mikilvægt að starfsemin haldist á svæðinu,“ segja þeir bræður en starfssvæði fyrirtækisins spannar allt Norðurland vestra. Með í kaupunum fylgja verksamningar auk þess sem þeir sjá fram á aukin verkefni.
Starfsmenn Króksverk eru sex og hefur þeim öllum verið boðin vinna áfram og bætast í hóp þeirra 15 sem fyrir eru á Steypustöðinni.
Sjá þessa frétt og fleira áhugavert á feykir.is